Um Álfhólaræktunina 
                        Varðveisla ættar og lita

Eitt af ræktunarmarkmiðunum í Álfhólum er að viðhalda gömlum ættum og vindótta kyninu stóðinu sem verið hefur þar í áraraðir. Í Álfhólum er að finna mörg afbrigði af vindótta litinum og er þar sérstaklega mikið af móvindóttu. Hér má fræðast meira um þessa litaræktun og almennt um
vindótta kynið í Álfhólum. 

Jafnframt má hér lesa um einn áhrifamesta 
afkomendur Hornafjarðarkynsins í Álfhólum á síðari árum, Nátthrafn frá Álfhólum.

Saga hrossaræktunarinnar í Álfhólum


Valdimar Jónsson hóf hrossaræktina á Álfhólum en hún á sér yfir hálfrar aldarsögu. Stofnfaðir allra núlifandi Álfhólahrossa er Nökkvi 260 frá Hólmi sem keyptur var að Álfhólum árið 1950 og var notaður í 8 ár áður en hann seldur Einari E. Gíslasyni.  Fyrir hafði Valdimar keypt Sörla frá Dalkoti, Hindisvíking sem hann notaði í fáein ár. Síðar, eða um 1970 fékk hann fola að láni hjá Einari sem var af hornfisrkum ættum eins og Nökkvi. Þ.á.m. var Kraki frá Hesti sem kom með vindótta litinn í stóðið þó hann væri sjálfur rauðblesóttur. Kraki var eitt af fáum afkvæmum Varðar frá Árnanesi sem var lengi uppáhalds reiðhestur Stefáns Pálssonar bankastjóra. Móðir hans var Prinsessa frá Hesti, Nökkvadóttir. Lengi vel voru engir aðrir hestar notaðir heldur en synir Nökkva og aðrir hornafjarðarættaðir hestar.

Árið 1978 kom í hagabeit nettur tvævetrungur í eigu Gunnars Bjarnasonar hrossaræktarráðunauts undan Hrafni 737 frá Kröggólfstöðum og Hélu frá Álfhólum.  Þessi tittur fékk örfáar hryssur til að leika við það sumar, en enginn bjóst við að það kæmi neitt merkilegt út úr því.  En reyndin varð önnur, því síðla sumars, ári seinna, fæddist brúnblesótt hryssa sem fékk nafnið Vaka. Vaka er formóðir yfir helmings Álfhólahrossanna í dag en undan henni eru til dæmis stóðhestarnir Tígur og Eldvaki ásamt hryssunni Þyrnirós. 

Valdimar ákvað eftir sneypuför norður á Landsmót á Þveráreyrum árið 1954, þar sem bæði Nökkvi og sonur hans Svipur frá Akureyri voru nánast dæmdir í sláturhúsið (það var víst staðsett rétt hjá), að gefa bara skít í þessa "bölvuðu" kynbótadómara  og sýna ekki hross framar. Hann stóð við það og seldi hrossin ung og ótamin. Hann var  ekkert að leggja of mikla vinnu í þetta, hryssur voru yfirleitt ekki tamdar, þær fóru í folaldseign eða voru seldar.  Það er ekki fyrr en sú sem þetta ritar fór að skipta sér af hrossaræktinni að það var byrjað að leiða hross í dóm á ný og temja hryssurnar. Tímarnir eru breyttir og hrossaræktandinn verður að vita að hverju hann gengur með hverja og eina hryssu, hitt tekur bara allt of langan tíma.   Hryssan spilar líka stórt hlutverk í uppeldi afkvæmis síns og mikill munur á að taka til tamninga tryppi undan tömdum og góðum hryssum heldur en ótömdum sem hræðast manninn og kenna afkvæmum sínum slíkt hið sama.

Eftirsóknarverðir eiginleikar í ræktuninni er fyrst og fremst gott geðslag, "hugurinn ber þig hálfa leið "  Samvinnuþýður og jákvæður vilji, hross séu hrekklaus og auðtamin. Þau séu með góða beisliseiginleika og séu það sem ég kalla sjálfberandi.  Mér þykir fátt leiðinlegra en að sitja hest sem þarf að halda uppi með handafli.  Til þess að hestur geti kallast sjálfberandi verður hann að vera með gott afturskref, þ.e.s. ganga vel innundir sig. Hestur verður fyrst og fremst að vera reiðhestur hvort sem hann er keppnishestur eða byrjendahestur.  Og að sjálfsöðu vill maður mikinn fótaburð og rými og ekki skemmir það að hafa góða stærð og gott útlit

Hér fyrir neðan má
 sjá  mynd af stóðhestinum Nökkva frá Hólmi sem er ættfaðir Álfhólakynsins. Hún er tekin við það tilefni þegar Valdimar afi er nýbúinn að versla Nökkva og þar sem ekki voru reglulegir hestaflutningar líkt og í dag þá lagði sá gamli bandbeisli við Nökkva og reið honum berbakt frá Þingvöllum að Selfossi  á einum degi.  Þar átti kallinn góða að sem lánuðu honum hnakk og beisli og daginn eftir lá leiðin niður í Landeyjar.  Af þessum sögum má lesa að Nökkvi hafi verið einstakur í geðslagi, auk þess að vera þrekmikill og duglegur hestur.

Þó að ekki hafi blásið byrlega fyrir Nökkva um tíma þá leiddi tíminn það í ljós að hann varð einn öflugasti ættfaðir íslenska hrossastofnsins og varla hægt að finna þann hest í dag sem ekki hægt er að rekja til hans.  Hrafn frá Holtsmúla er líklega þekktasti afkomandi hans og gaf eins og Nökkvi geðgóð vinsæl hross.

Lengi var því líka haldið fram að í Skagafirði leynust meira af Nökkvaafkomendum en upp var gefið, en það þótti fínna að kenna hrossin sín við Austanvatnahest heldur en Nökkva. Ég veit hins vegar lítið um þessi mál.

Flettingar í dag: 686
Gestir í dag: 43
Flettingar í gær: 761
Gestir í gær: 63
Samtals flettingar: 514082
Samtals gestir: 15725
Tölur uppfærðar: 2.2.2023 18:41:20

ÁLFHÓLAR | SARA ÁSTÞÓRSDÓTTIR | 861 HVOLSVÖLLUR - ÍSLAND | Tel: (+354) 898 8048 | ALFHOLAR@ALFHOLAR.IS