Færslur: 2011 Júlí

23.07.2011 14:27

Skagafjarðarskjóna


Þannig var mál með vexti að í byrjun Júní kastaði gömul hryssa hjá okkur dauðu folaldi.  Það var greinilegt var að hún tók missinn nærri sér eftir að hafa verið geld árið áður og hafði mikinn áhuga á að stela folaldi frá annari hryssu sem var nýköstuð.  Þá skellti ég inn tilkynningu inná slúðrið á Hestafréttum ef ske skildi að einhver væri í vandræðum með móðurlaust folald, því ég var viss um að sú gamla myndi taka því fagnandi.  Og morgunin eftir fékk ég hringingu frá Móniku á Korná í Skagafirði sem ég er nú kunnug frá því á Hólum í denn og hún var sem sagt með folald sem þeim hafði verið gefið fáeinum dögum fyrr því mamma hennar, Birna, er algert sjení að koma svona móðurleysingjum á legg og Skjóna litla ekki sú fyrsta sem er í fóstri hjá henni.  En eins og þeir vita sem hafa það reynt, er mikil vinna að hugsa um svona kríli og fyrst það var hryssa í boði......



..... þá voru þau alveg til í að skutla Skjónu litlu suður fyrir heiðar og það vildi svo til að Hrefna María var í Reykjavík, sparaði þeim sporin og hitti þau Móniku, Högna og Birnu í Borgarnesi en Skjóna litla var í aftursætinu í góðu yfirlæti hjá þeim :)



Hún kippti sér ekkert upp við þennan langa bíltúr og þótti ekkert sjálfsagðara en að vera ein af fólkinu og það átti eftir að koma í ljós þegar við vorum að setja hana undir að hún hafði mun meiri áhuga á að vera í félagsskap með okkur ;)


Það var gott að fá sér sopa þegar loksins var stoppað í Borgarnesi!



Og svo var skipt um farartæki.....



...og sú litla var ekki lengi að gera sig heimankomna í skottinu á Crusernum og það var svo brunað niður í Álfhóla og lending þar rétt fyrir miðnætti.  Hrefnu til halds og trausts var Rakel frænka Jónsdóttir.



Svo varð spennandi að vita hvort öll fyrirhöfnin myndi vera til einskis og við myndum sitja uppi sjálf með móðurlaust folald.  Gígur gamla var ekki alveg eins hrifin af þessari eins og folaldinu sem hún reyndi að stela kvöldinu áður og það virtist sem móðureðlið væri eitthvað að rjáltlast af henni enda 1 og hálfur sólarhringur frá því hún kastar sínu folaldi þangað tl að Skjóna kemur.  Og Skjóna litla var heldur ekki par hrifin af þessari nýu fóstru sinni og reyndi við öll tækifæri að koma og vera hjá okkur frekar, enda taldi hún sig vera mannabarn en ekki folald lengur ;)



En morguninn eftir voru nýju mæðgurnar orðnar nokkuð sáttar hvor við aðra, þótt  Skagafjarðar-Skjóna hafi fagnað mér gríðarlega þegar hún sá mig og elt mig niður á tún en ekki merina þegar ég leiddi þær út í lítið hólf.   En hún áttaði sig fljótlega og þarna er hún orðin þriggja vikna gömul og það er skemmst frá því að segja að hún vill ekkert tala við okkur mannapana lengur ;)



22.07.2011 23:30

English readers



The English News page has now been updated. News from Landsmót and the Icelandic Sport Championship.

Stay tuned, more to come!

19.07.2011 11:00

Tölt-Tölt-Tölt


Um helgina fór fram Íslandsmót í Hestaíþróttum í bongóblíðu á Selfossi.   Við Hrefna María tókum þátt og enduðum báðar í A-úrslitum í sitthvorri töltgreininni.  



Hrefna var hér áður mjög framarlega í keppni á Rauðskegg sínum í slaktaumatölti, nú er hún búin að dubba upp nýtt hross fyrir þessa grein, hana Indíu Leiknisdóttur frá Álfhólum.  Þær enduðu í sjötta sæti.



Þetta var önnur töltkeppni sumarsins hennar Dívu og við gerðum ágæta ferð þrátt fyrir litla sem enga æfingu á hringvelli þetta sumar þar sem ég ákvað að einblína á kynbótabrautina þetta tímabilið með ágætum árangri eins og áður sagði.    

Engu að síður tókst sýningin ágætlega og við fengum 7.9 og eitthvað í forkeppni. 7.93 og í 4-5 sæti var sagt, en vegna villu í útreikningum var ég eitthvað hærri og örugglega í fjórða sæti eftir forkeppni.  

Akkelesarhællin hjá okkur í úrslitum var hæga töltið sem var ekki nógu vel útfært en hraðabreytingarnar voru uppá 8.5 og yfirferðin 9 og við fengum 8.39 í úrslitum og 3-4 sæti ásamt Jakobi fyrrverandi skólabróður mínum frá Hólum sem kom á blússi uppúr B-úrslitum.   Kobbi heppni vann svo hlutkestinn og skildi mig eftir í 4 sæti!  

En eftir á að hyggja er þetta engu að síður besti árangur hjá okkur Dívu í töltkeppni, því þarna voru samankomnar allar stærstu kanónurnar í töltinu að Tuma undanskildum og hestar sem voru í A-úrsitum á Landsmótinu þurftu að láta sér lynda að vera í B-úrslitum í þetta skiptið.

Skemmtilegt hvað hryssurnar eru að standa sig vel í töltinu þessa dagana en úrsitin voru eftirfarandi:

1. Sigursteinn Sumarliðason og Alfa frá Blesastöðum 1A  9,00.
2. Sigurður Sigurðarson og Kjarnorka frá Kálfholti 8,61
3. Jakob Svavar Sigurðsson og Árborg frá Miðey 8,39
4. Sara Ástþórsdóttir og Díva frá Álfhólum 8,39
5. Hinrik Bragason og Sigur frá Hólabaki 8,28
6. Sigurbjörn Bárðarson og Jarl frá Mið-Fossum 8,00

Hérna má sjá öll A-úrslit frá Íslandsmóti:




Þar sem ég hef verið aðeins duglegri að uppfæra Smettiskinnuna heldur en heimasíðuna, þá hafa þessi video hér aldrei náð að komast inná heimasíðuna fyrr en nú, en hér má sjá Dívu í forsýningu á Hellu......



....Og hér er eitt ennþá eldra frá Reiðhallarsýningu í vor þar sem Díva og Kjarnorka komu saman og skemmtu reiðhallargestum :)

13.07.2011 13:22

Kynbótahross á Landsmóti


Kolka Íkonsdóttir frá Hákoti og Hrefna María komu langhæstar inná mót í fimm vetra flokknum og það var nokkuð ljóst að þeim þyrfti að mistakast verulega eða önnur hross að bæta töluvert í ef eittvað átti að breytast með toppsætið.



En að var ástæðulaust að hafa áhyggjur af þeim stöllum og þær bættu við stóru tölurnar frá því í vor, hækkuðu fegurð í reið uppí 9, og var með fyrir 9 fyrir brokk og vilja fyrir.  


Og sigurinn innstimplaður með góðum spretti, 8.58 í hæfileikaeinkunn og 8.51 í aðaleinkunn! Sannarlega glæstur árangur hjá þeim stöllum!



Kátar og stoltar mæðgur með Hremsuskjöldinn.  Já, það voru aldeilis happakaup hjá Rósu þegar hún fjárfesti í Kolku 2008, korteri fyrir Bankahrun!



Díva var ekki alveg sjálfri sér lík fyrstu dagana eftir að hún kom norður á föstudaginn og vildi liggja meira og minna allan laugardaginn svo mér var ekki alveg farið að lítast á blikuna...



En það var þó ekki ástæða til að hafa miklar áhyggjur og hún stóð vel fyrir Tíunni sinni fyrir töltið þó að einhverjar aðrar tölur hafi verið reittar af henni.  Hún var í essinu sínu á yfirlitinu og sýndi töltið sitt í öllum útfærlum og hraða undir dynjandi lófaklappi brekkunnar :) 



Það þótti kannski sumum skrítið þegar ég skokkaði með Dívu til verðlaunarafhendingar í 7 vetra flokknum þar sem hún varð sjötta í röðinni.  En hún átti eftir að spila stórt hlutverk í tveimur sýningum seinna um daginn og mér þótti það bara einfaldlega of mikið að hnoðast á henni þrisvar sama daginn!



Sjarminn Sóllilja lækkaði lítillega frá Hellusýningunni, fékk 9 fyrir tölt og fegurð í reið.



Fljúgandi stökk.... hvað skildi hún vera hátt uppi frá jörð, hálfan meter?  Sóllilja hefur fengið 9 fyrir stökk en fékk bara 8.5 á Landsmótinu þó.



Þrumufleygur komst ekki á sama flugið og í Hafnarfirði en fékk 9 fyrir tölt og stóð vel fyrir því og...



....9 fyrir brokk og hann vakti mikla athygli á yfirlitinu þrátt fyrir að vera ekki í hópi efstu hesta....


.....og brekkan tók vel við sér þegar hann gekk í sínum stóru og háu skrefum á brokki og tölti eftir brautinni og einhverjir höfðu á orði að þessi hestur hefði alla burði til að fara í 9.5 fyrir tölt og brokk.



Því miður var hann eitthvað með sviðskrekk þegar átti að sýna fimmtu gangtegunina fyrir framan dómarana, en á æfingu daginn fyrir yfirlit sýndi hann okkur góðan og töluvert kraftmikinn sprett. Spurning hvort að það sé kannski bara sviðskrekkur í Jonna þegar hann kemur fram fyrir of mikið af fólki ;)



En fótahreyfingarnar eru miklar og kannski ekki óeðlilegt að fótaröðunin ruglist aðeins þarna á milli, sérstaklega þegar völlurinn er svona harður eins og hann var á Melunum og sást kannski best þegar úrslitin í A-flokknum voru á sunnudag þegar ansi margir sprettir fóru í vaskinn.   



Jonni stóð líka sig vel með Sál frá Ármóti og hún endaði í þriðja sæti í 7 vetra og eldri hryssum.

En þó að kynbótasýningarnar væru búnar var "Álfhólhólacrewið" ekki komið í frí og hrossin okkar áttu eftir að spila stóra rullu á föstudagskvöld og laugardaginn og því í nógu að snúast :)   Meira um það síðar!
  • 1

Eldra efni

Flettingar í dag: 449
Gestir í dag: 53
Flettingar í gær: 15534
Gestir í gær: 437
Samtals flettingar: 1351146
Samtals gestir: 89368
Tölur uppfærðar: 11.9.2024 05:58:00

ÁLFHÓLAR | SARA ÁSTÞÓRSDÓTTIR | 861 HVOLSVÖLLUR - ÍSLAND | Tel: (+354) 898 8048 | [email protected]