Færslur: 2008 Nóvember

26.11.2008 11:09

Dagrún

Það eru heitar umræður um þá stóðhesta sem eru seldir úr landi eða eru á leiðinni, erum við að missa forystuna í ræktuninni?

Það voru hinsvegar ekkert mjög margir sem létu í sér heyra þegar Álfasteinn fór úr landi í fyrra, hann var alltaf nokkuð umdeildur.  Sem betur fer fór ég af stað og hélt undir hann áður en fólk fór að hafa hann milli tannana því að í staðinn fyrir að fylgja minni sannfæringu og fara með fleiri hryssur til hans hélt ég að mér höndunum.  
Móðir Álfasteins, Álfadís, er alltaf í mínum huga Drottning annara íslenskra hryssna og réði það minni ákvörðun að halda undir hann ósýndan.

En sem sagt ég á undan honum þrælefnilega hryssu og henni Miðfells-Dimmu.  Hrefna er þarna að keyra með mér eftir tæplega 3ja vikna tamningu og ég verð að segja að það væri ekki hægt að ríða öllum tryppum svona nálægt bíl eftir svona litla tamningu.  Hæfileikarnir eru til staðar, tölt brokk og skeið.  Og svona rétt að minna ykkur á þá er hún þriggja vetra og sjötta afkvæmið undan Dimmu sem er tamið og kannski vonandi það sjötta sem fer í dóm líka, því öll hennar afkvæmi hafa skilað sér á kynbótabraut og þ.a 3 í fyrstu verðlaun.

Mér þykir það gott að hún virðist ætla að ganga heil til skógar, því að þegar hún var vetugömul þá lenti hún í graðhesti frá næsta bæ sem beit hana svo illilega á háls að ég hélt að hún yrði hreinlega ekki til reiðar( reyndar heppin að stóru æðarnar sluppu), og það má sjá á þessum myndum af henni fyrir framan bóginn stórt ör.  Haustfeldurinn hylur þetta að vísu en á sumrin er þetta agalega ljótt.

P.S Ég veit að það er ekki fínt að birta hauslausan knapa opinberlega á myndum en þið verðið að hugsa henni frænku minni þegjandi þörfina fyrir það. Annars eru fleiri myndir af Dagrúnu hér

08.11.2008 09:59

Móey



Meðeigandi minn að Móey hringdi í mig fyrir nokkrum dögum og var heldur svekktur yfir því að ég nefndi hana aldrei á nafn, talaði bara um hinar 3v hryssurnar sem ég væri með.  Ég sagði honum ekkert að örvænta, hún væri ójárnuð ennþá og ekki komin eins langt og t.d Dagrún.  Tamningakonan hefði slasað sig og henni ekkert verið sinnt í tvær vikur meðan hún var að jafna sig.



En fyrir 4 dögum rak ég undir hana og það komu aðrar gangtegundir í ljós en valhhoppið góða sem hún hafði fram að því beitt fyrir sig.



Ég hef ekki orðið þeirrar ánægju aðnjótandi að prófa hana ennþá, en ég ætla nú kannski að hoppa  nokkrum sinnum á hana áður en ég sleppi henni aftur.

Móey var frekar óráðið folald.  Nokkurra klukkustunda gömul, gekk hún um á þessu flotta hágenga mýktartölti, man að mér fannst hún hreyfa sig eins og köttur, svaka mjúk.  Seinna meir var ég staðráðin í því að ég hefði bara séð ofsjónir og það væri ekkert varið í hana, því hún fór mest sín uppvaxtarár á hægu valhoppi nema eitt sinn er ég þrengdi að henni og ýtti aðeins við henni þegar hún var veturgömul, að ég sá einhverja hreyfingu sem minnti á móður hennar.    Eftir þriggja vikna tamningu liggur hún betur fyrir með tölt og brokk en móðir hennar gerði eftir sama tíma, hefur öflugra og burðarmeira bak en sú gamla hafði og á strax auðvelt með að bera sig rétt að (ekki svo að skilja að Móeiður hafi verið sein til, fékk 7.9og eitthvað fyrir hæfileika fjögurra vetra gömul klárhryssa eftir 4 mán í tamningu).  
Hvernig þetta þróast allt saman kemur bara í ljós en það er alltaf gaman þegar tryppin eru fljót til.

06.11.2008 13:41

Móálóttvindótt





Það hefur líklega fáum dulist áhugi minn fyrir því að eiga þokkaleg vindótt hross.  En vindótt er ekki bara vindótt og er til í mörgum blæbrigðum, t.d vitum við hvernig þessi venjulegu jarp og móvindóttu sem við þekkjum, líta út og það er til númer í WF fyrir þá liti.   Móálótt vindótt er litur í sjaldgæfari kantinum sem við sjáum ekki á hverjum degi og þó við sjáum það þá er ekki alltaf víst að við gerum okkur grein fyrir því að þarna sé eitthvað annað en venjulegt móvindótt á ferðinni.  Þarna mætti WF bæta sig og bæta inn tölu fyrir þennan lit því móálótt vindótt er að sjálfsögðu ekki það sama og móvindótt og gefur mun fjölbreyttari erfðamöguleika.

Þessi hryssa heitir Mánaglóð undan Mónu og Braga frá Kópavogi.  Þegar hún var nýfædd var hún mjög ljós á litinn og ég fékk strax þá hugdettu að hún væri ekki venjulega móvindótt, einhver öðruvísi blær á henni.  Ég skrifaði hana strax móálótt vindótta í WF en hún fær samt bara lykil sem þýðir móvindóttur.   Um haustið var ekki hægt að gera greinarmun á henni og öðrum móvindóttum folöldum eins og sjá má á þessari mynd að ofan (sem er kannski ekki mjög skýr heldur).



Raunverulega staðfestingu á því hvernig Mánaglóð væri á litinn fékk ég svo í vor þegar hún gekk úr folaldshárunum og mönin sást greinilega eftir endilöngu bakinu.

01.11.2008 14:32

Baldni folinn



Ég var einhvern tíman búin að minnast á að ég væri með skemmtilegan gelding undir höndum, og hér er sem sagt mynd af honum. Kannski geri ég video af honum líka þegar losnar pláss í tölvunni en hún er ansi full, 2 laus megabæt eftir!
En þetta er sem sagt hann Rebbi minn. Hann var svo klár um daginn þegar að það kom kona með fullt af peningum og e-ð varð ég að sýna henni, en Rebbi varð fyrir valinu. Ætlaði að setja bara nógu mikið á hann þannig að hann færi ekkert.  En nei, þó hann gangi alltaf voða fínn og sáttur (eða næstum alltaf) undir rassinum á mér, þá var hann ekki að fíla eitthvað hjá þessari konu og stökk bara upp í loftið og lét alveg eins og fífl.  Konan skildi ekki neitt í neinu enda taldi sig góðan reiðmann og skellti skuldinni auðvitað á klárinn, illa taminn, frekur og vitlaus.  Ég ætlaði aldrei að hafa hana af baki því hún var ekki sátt við að gefast upp en tókst þó að lokum, því hann var alveg kominn í þann gírinn að losa sig sjálfur við hana!   Ég varð bara voða fegin og Rebbi minn tölti með mig fangreistur og fínn alla leiðina heim og ég þurfti ekkert að hafa fyrir því að finna neitt verð á hann.   Það er nú samt ekki svo gott að hann sé neinn einsmanns hestur þó svo það hafi alltaf verið gamall draumur frá því maður fór fyrst á hestbak að eiga hest sem enginn gæti setið nema ég sjálf, því dönsku stelpurnar ( Nanna vinkona Maju er hér tímabundið líka) ríða honum skellihlæjandi líka.


Það er töluvert skeið í honum líka en ekkert verið þjálfað. Ég var bara mjög sátt við að sjá hann undir mér í fyrsta skipti þrátt fyrir að hann sé spikfeitur og ekki uppá sitt besta, en ég lét taka video af okkur svona í leiðinni, en ég var að mynda söluhross meðan veðrið var gott.
 
 
T.d hann Kolfaxa en Kolfaxi og Refur eru undan alsysturm, svo skemmtileg tilviljun sem það er.  Refur er undan Nótt og Kolfaxi undan Kolföxu gömlu ( þið munið kannski eftir brúnskjóttu folaldi sem var á forsíðunni fyrir ekki svo alls löngu en það er undan sömu hryssu)  Kolfaxa hefur bara átt hesta síðustu ár en tvær hryssur undan henni voru seldar út fyrir löngu og skemmtilegt nokk að oft fæ ég fréttir af þeim, en eigendurnir eru svaka ánægðir með þær, sér í lagi eigandi Kolbrúnar sem er hollenskur en hún var á einhverri kynbótasýningu um daginn (ekki svona eins og  við þekkjum) og kom bara svaka vel út.  Ég á eina alsystur þeirra, sem heitir Kolfinna sem stóð alltaf til að temja en var aldrei gert en hún átti hest hér á sölusíðunni, Örninn sem er nú seldur og eina afkvæmið hennar enn sem komið er.

Nótt á því miður ekki mörg afkvæmi og Refur er sá fyrsti sem er verulega spennandi.  Oftar en ekki voru folöldin hennar bara sett í "hvíta húsið" þóttu lítil og full mikið geng.  Það hefði sjálfsagt verið örlögin hans Rebba ef hann hefði ekki verið undan Pegasus sem var töluvert látið með á sínum tíma.  Hann kútaðist um á lulli og einhverju töltmalli líka, kannski ef maður setti hundinn í hann að hann sýndi e-ð rými en annars var hann ekkert í hávegum hafður.  Svo liðu árin og hann varð langmyndarlegastur í hópnum en svoldið styggur og var um sig, og er enn í dag ekkert mjög kelinn. Það er eins með Nótt og Kolföxu en hún hefur bara átt hestfolöld í seinni tíð og það eru til nokkrir geldingar undan henni sem eru að komast á tamningaaldur. 

Nótt og kolfaxa eru hálfsystur Jarls frá Álfhólum að móðurunni til en Jarl var Feykissonur og lengi vel keppnishestur Gulla í "Reiðsport" eða á Lækjarbakka.

Jæja nóg komið af einhverju rausi um gamlar merar.







  • 1

Eldra efni

Flettingar í dag: 8491
Gestir í dag: 35
Flettingar í gær: 1659
Gestir í gær: 77
Samtals flettingar: 1436145
Samtals gestir: 93896
Tölur uppfærðar: 8.10.2024 20:04:38

ÁLFHÓLAR | SARA ÁSTÞÓRSDÓTTIR | 861 HVOLSVÖLLUR - ÍSLAND | Tel: (+354) 898 8048 | [email protected]