Færslur: 2008 Apríl

20.04.2008 12:48

DimmirÉg sé að videoið af Dimmir sem hún Valgerður tók fyrir mánuði síðan er að vekja athygli, en það eru bara gamlar fréttir.  Við Dimmir erum komin mikið lengra í okkar leik þessa dagana og það er aldrei að vita nema draumur Eyjólfs Ísólfssonar um hestinn sem hægt er að ríða allar gangtegundir beislislaust á rætist. 

Dimmir frá Álfhólum á spönsku spori berbakt og beislislaust, geri aðrir betur

13.04.2008 11:00

"Síðasti Hornfirðingurinn í dalnum"Það eru örugglega engar ýkjur þó það sé sagt,  að það séu fáir, ef  þá nokkrir stóðhestar á landinu í dag sem eru eins mikið Hornafjarðarræktaðir og Dimmir frá Álfhólum.  Og búaliðar í Hornafirði þurfa hreint ekkert að fornumast  út af stórum orðum,  því móðirin kemur beint frá Mekkanu, Dimma frá Miðfelli úr ræktun Þrúðmars á Miðfelli og svo er hann undan hinum heimaræktaða Tígur frá Álfhólum 

Það er frekar óalgengt nú til dags að hægt sé að finna álitlega hesta sem ekki eru komnir útaf Orra eða öðrum Sauðárkróksættuðum hestum, Ófegi frá Flugumýri svo eitthvað sé nefnt.  Dimmir er þó ekki alveg laus við að vera kominn útaf tískuhestum seinni tíma, en Þokki frá Garði er afi hans og þar með er Hrafn frá Holtsmúla kominn í spilið.  En engu að síður ber hann með sér sterkan hornfirskan svip, liturinn dökkkorgjarpur og margt sem minnir á "horna" góðhesta.

Skálmar á brokki.

Flugvakur kappinn líka!

Og geðslagið "eigum við að ræða það eitthvað" . Þessi mynd segir það sem þarf en hún er tekin í byrjun vetrar af Elsu frænku minni sem kom í heimsókn og fékk að fara á bak á snillingnum.  Dimmir hefur frábært geðslag var svo til sjálftaminn og óð strax um á öllum gangi í góðum fótaburði.

Hann sannar þá kenningu margra að augað sé spegill sálarinnar, en hann hefur bjartan og fallegan svip, hvað svo sem ráðunautar eiga eftir að segja í vor!

Ég hugsa stundum til þeirra sagna sem maður heyrði af Nökkva frá Hólmi þegar ég er að umgangast Dimmi, en Valdimar afi notaði Nökkva til hinna ýmsu brúkunarverka þegar hann átti hann.  T.d fór hann á Nökkva niður í fjöru, týndi allt mögulegt drasl sem hugsanlega var hægt að koma í verð, s.s hringi, kúlur og netabelgi, hengdi á klárinn svo ekki sást lengur í hann og svo rölti hann heim með herlegheitin. 

Það þarf umburðarlyndan karakter í að framkvæma þetta fyrir stórskrítinn þjáfara sinn, sjá video hér,  en við vorum eitthvað að bregða á leik fyrir framan Valgerði vinkonu frá Hrauni þegar hún kom í heimsókn um daginn, grunlaus um að hún væri vopnuð videoupptökuvel!


Það sem gerir Dimmir ekki síst áhugaverðan til ræktunar er að hann er ekki einasta afkvæmi móður sinnar sem er álitlegur. Systir hans, Díva á fjórða vetur undan Arð frá Brautarholti er virkilega skemmtileg og fljót til en hér fyrir neðan má sjá af henni myndir eftir rétt um 3ja mán tamningu.

Díva hefur skemmtilega beisliseiginleika eins og sjá má á þessari mynd, á auðvelt með að ganga í góðum höfuðburði án nokkurs taumstuðnings, sjálfberandi hross en ég legg mikið upp úr því að hross hafi góða beisliseiginleika, því það gerir þau að skemmtilegum reiðhrossum líka!Dagrún Álfasteinsdóttir er næst í tamingu.


Svo þótti Dimmuborg flottasta folaldið á "folaldasýningunni" hér fyrir neðan.

Og ekki má gleyma þeim afkvæmum sem Dimma skilaði af sér áður en ég eignaðist hana, þ.a ein 1st verðl hryssa, önnur með ágæt önnur verðl.  Svo ku Hafliði bóndi í Ármóti vera með eina svaka fótaburðagræju undan Gauta og Dimmu, Diljá frá Ármóti en það er síðasta afkvæmið sem hún átti áður en hún kom í ræktunina hér.

Dimmir verður notaður á Álfhólum í sumar, verð á folatolli verður ákveðið fljótlega, en því verður stillt í hóf.

07.04.2008 23:30

Veiiiii!

Vá það var mikið... Það hefur ekki gengið þrautalaust að koma nýja kerfinu í gegn hjá 123.is.  Allar undirsíður dottnar út og svo lokuðu þau hjá mér síðunni í 2 daga af því að ég væri ekki búin að borga!!   Daaaa, reyndar borgaði ég eftir að var farið að hrista upp í kerfinu en nýja kerfið var ekkert að koma greiðslunni til skila í tíma, og slamm lok, lok og læs, allt í stáli......En svona er þetta nú bara, þolinmæði þrautir vinnur allar, er þakki annars?  Það er ekkert hægt að lesa um hryssur og stóðhesta eins og er svo dæmi séu nefnd, en ég vona að þetta lagist hjá þeim annars verð ég eða aðstoðarvefstjórinn að setjast niður til að gera og græja!

Brá undir mig betri fætinum og skellti mér á Ístölt.  Setti inn videobrot inn af úrslitunum sem hægt er að sjá undir myndbönd.Annars var þetta bara ágætt, Rökkvi átti sigurinn skuldlaust, hefði alveg viljað sjá Lenu og Einingu í A-úrslitum, en í staðinn fyrir hvern, já það var smá spurning.  Dóri og Nátthrafn hefðu alveg mátt halda öðru sætinu en hann hefur örugglega sett klárin á einhverja ísklifurgadda, ferðin á honum var slík þarna inni og menn hafa nú alveg flogið á hausinn fyrir minna! 

Á fimmtudaginn fór ég á upprifjunarnámskeið gæðingadómara.  Diddi var með ágætan fyrirlestur um dómgæslu á skeiði sem ekki virtist vera vanþörf á miðað við myndir og videóbrot sem farið var í gegnum.  Lands og heimþekkt  hross sem varla skeiða spor og fá fulla einkunn fyrir. Hann veit hvað hann syngur, kallinn og má eiga það að hann var með langflottustu skeiðsprettina í meistaradeildinni um daginn.

UMMM, veðrið já, það var bara yndislegt í dag, vor í lofti og fuglasöngur, bara forréttindi að fá að vinna úti við áhugamálið sitt á svona dögum, enda var riðið út til tíu í kvöld og ennþá var bjart.

Svo er komin aðstoðartamningastelpa frá Danmörku, Maja, sem er að standa sig ágætlega og það munar mikið um að fá einhvern í verkin með sér.  

Það  tikkar alltaf eitthvað inn sem uppáhalds í einhvern tíma þegar mörg hross eru á húsi hjá manni.  Villimey Villirósar og Tígursdóttir er "in" hjá mér í augnablikinu, jafnvíg og skemmtileg alhliða hryssa, jamm nú gerir maður kröfur um að fimmti gírinn sé með ;)
Villirós er fyrstu verðlauna flugvökur Ögradóttir sem er komin til Danmerkur núna.  Ef hún hefði haft betra geðslag,  þá ætti ég hana pottþétt ennþá enda var heilmikið gangmatreal þarna á ferð.  Villimey er aftur á móti með mikið auðsveipara og betra geðslag og miklu meiri reiðhestkosti en mamma sín, henni var nú varla reitt nema með stangir og strekkta keðju en stundum dugði það ekki til eins og sumir fengu að reyna!

Eitthvað fórust fyrir myndasendingar af Dívu sem ég var búin að lofa, ég græja bara aðrar fljótlega enda er hún alltaf að bæta sig. 

Segjum þetta gott í bili!03.04.2008 14:27

Uppfærsla á vefþjóni síðunnar!

Verið er að skipta um þjónustukerfi fyrir heimasíðuna og á meðan hafa nokkrar undirsíður dottið út. 
Verið er að vinna að viðgerðum og vonandi kemst síðan í samt lag fljótlega.  

Aðstoðarvefstjórinn.
  • 1

Eldra efni

Flettingar í dag: 1557
Gestir í dag: 167
Flettingar í gær: 2895
Gestir í gær: 453
Samtals flettingar: 1179512
Samtals gestir: 78153
Tölur uppfærðar: 19.7.2024 14:00:52

ÁLFHÓLAR | SARA ÁSTÞÓRSDÓTTIR | 861 HVOLSVÖLLUR - ÍSLAND | Tel: (+354) 898 8048 | [email protected]