24.09.2011 10:58

Kindablogg


Haustið er komið í allri sinni dýrð, já og hefur eiginlega verið alveg dásamlegt framundir þennan tíma.  Eitt af haustverkunum er að smala saman skjátunum og setja litlu fallegu lömbin í "hvíta húsið".   
Þau voru reyndar ekkert sérstaklega lítil þetta haustið og meðalviktin af 108 stykkjum sló öll met, 18.7 kíló og gerðin alveg heilum hærri en undanfarin ár, 9.63, fitueinkuninnkannski ekki alveg eins góð, 8.07 en það getur orðið aðeins óhagstætt hlutfallið þarna á milli þegar ekki er um eiginlegan haustbata að ræða, þau koma flest nánast beint af mýrunum og móunum hér en einhver hluti þó búin að koma sér vel fyrir í túni seinni partinnn í ágúst.  Við nennum ekkert að eyða of miklu púðri í þessar rollur með að búa til kál og dekstra þær um of, þær verða bara að vera flottar af náttúrunnar hendi enda er það sérlegt áhugamál mitt þegar á haustinn að þukla læri fram og aftur ;)   Reyndar stóð ég mig ekki alveg nógu vel í hrútaþuklinu núna um daginn vegna tímaleysis og "missti" 3 hrúta sem fóru í E í húsið, hefði nú verið skemmtilegra að láta dæma þá fyrst :/  Sérstaklega af því að það er alltaf að aukast að maður er beðinn um kollótta hrúta, en megin þrorri fjársins er án halda.  
Sumir eru þó minna hrifnir af því þegar þeir eru í réttarstörfum hérna og kvarta sáran og skilja ekkert í því að maður skuli ekki vera með höldur á þessu.  Ég svara þá bara á móti, hvernig myndi þér líða við að fæða stórhyrnt mannabarn ;)   En það er alveg gaman að hafa eina og eina stolta hyrnda ær með í hjörðinni til að setja á hana svip.

Myndin að ofan er úr myndasafni, og brátt fækkar í mórauðu hjörðinni því Móflekkur gamli skilaði sér ekki af mýri í sumar.  Þannig að það verður að fara að gera ráðstafanir því það er voða auðvelt að týna þessum lit ef maður er ekki annað slagið með mórauðan hrút.




Þar sem kindurnar báru heldur seinna í ár en oft áður þá vorum við aðeins hissa á þessum vænleika, en það kom einn með þá skýringu á að við ættum að þakka fyrir að fá þessi fínu eldgos sem gæfu túnunum svona fín "boost" og ættum bara að biðja um eitt á ári.........ehmm veit ekki alveg með það sko, en kannski fáum við eitt enn áður en langt um líður því Katla gamla er eitthvað að hrista sig og reka við þessa dagana, en megi hún samt sem áður sofa sem lengst, allavega ef Eyjafjallajökull er bara sýnishorn af henni, úffffff...

Þessi mynd er einmitt tekin við það tilefni þegar Vatnajökull sneri öskutróknum sínum yfir okkur á öðrum eða þriðja degi í vor.

Nú, þó að það sé gaman að stunda hrúta og lambaþukl, er það ekki það eina sem á hug manns þessa dagana, því hesthúsið er fullt að vanda, slatti af nýjum trippum í vinnslu og þónokkuð af góðum söluhestum, en það koma fréttir af hestum síðar!  Over and out :)


Eldra efni

Flettingar í dag: 1182
Gestir í dag: 27
Flettingar í gær: 1097
Gestir í gær: 27
Samtals flettingar: 1561505
Samtals gestir: 98331
Tölur uppfærðar: 13.11.2024 11:37:53

ÁLFHÓLAR | SARA ÁSTÞÓRSDÓTTIR | 861 HVOLSVÖLLUR - ÍSLAND | Tel: (+354) 898 8048 | [email protected]