27.04.2010 11:00

Í skugga eldgoss



Það er ekki hægt að segja að það sé tíðindalaust hjá okkur á Íslandi þessa dagana, sér í lagi okkur sem búum við rætur Eyjafjallajökuls.

Þeir máttu þakka fyrir það túristarnir sem voru að skoða litla sæta túristagosið á Fimmvörðuhálsinum að vera flestir komnir til byggða þegar Eyjafjallajökullinn sprengdi sig upp um toppinn í alvöru hamfara gosi með flóði og ægilegu öskufalli.

Rýmingaráætlun var virkjuð og við vorum rekin þrisvar sinnum að heiman tvo fyrstu dagana.  Ég verð nú samt að segja það að mér fannst það heldur mikill óþarfi að þurfa að flýja þótt það gysi undir snjóskaflinum í Eyjafjallajökli eins og ég kallaði það.  Það væri hins vegar önnur saga ef stóra systir, Katla myndi fara að ræskja sig, þá skildi maður forða sér þó svo að hún hafi ekki sett hlaup í Markarfljót á síðustu 1500 árum og er vonandi búin að finna sér farveg austur um Mýrdalssand.
 
.

Fyrstu dagana sáum við ekki neitt vegna skýahulu, en á föstudaginn tveim dögum eftir að gosið hófst, sáum við herlegheitin í fyrsta sinn.  Og það voru blendnar tilfinningar sem bærðust með manni og ímynd vinalega jökulsins hafði heldur betur breyst á einni nóttu.



Á laugardaginn var ægilegur kraftur í gosinu á tímabili og gríðarlegur sótsvartur strókur.  Afar myndrænt og stórfenglegt að horfa á fyrir þá sem voru það heppnir að standa fyrir utan, en helvíti á jörð fyrir fólkið og skepnurnar undir Eyjafjöllum að upplifa.



Það var ekki unnið neitt sérstaklega mikið fyrstu dagana sem gosið var.  Maður var stanslaust inná fréttamiðlum og á veður.is að skoða veðurspána og hvort það væri nokkur hætta að fá þetta yfir sig.



"Það er að kvikna í "



Til allrar hamingju var mesta pústið farið úr gosinu þegar áttin breyttist og kom yfir okkur, en það er varla hægt að kalla það öskufall (smá öskufjúk) sem kom yfir okkur á föstudag og laugardag.  Sagan segir að eldgos á þessum stað geti varað lengi og því er manni ekki alveg rótt undir því.  Þótt við höfum verið heppin hingað til, þá veit maður ekkert hvernig sumarið verður.



Stóðhrossin hafa það svo sem ágætt með hey og  ferkst vatn en þau eru ekki sérlega ánægð með að vera lokuð frá nýgræðingnum sem er að skjóta upp kollinum. 



Það getur orðið meiriháttar vandamál hjá bændum sem rækta "ullarpöddur" ef ekki verður hægt að setja þær á gras í vor.  Þessar voru snemma í því hjá okkur og báru í lok mars eða byrjun apríl.  Og frjósemin með ágætum en sú flekkótta er aðeins tvævetur og er þriggja barna móðir og stendur sig með prýði.  Lambakóngurinn er ekki með á myndinni en hann fæddist þegar gaus á fimmvörðuhálsi, 21 apríl og er orðinn alveg gríðarstór. 
Annars er hefðbundinn sauðburður að hefjast á fullu nú í þessum skrifuðu orðum.


                                                                                                                                                       Dimmir frá Álfhólum

Þjálfun hefur gengið ágætlega, en þessi vetur verður samt svoldið skrítinn í minningunnni.  Mótum hefur verið aflýst og ég hef ekki viljað fara með nein hross á reiðhallarsýningar vegna ótta við að fá kvefpestina.  En grunur leikur hins vegar á að hún sé í fullum gangi hjá mér án þess að ég hafi haft hugmynd um það en það var tekið test á nokkrum hrossum hjá mér í gær sem þau svöruðu.  Ekkert þeirra er samt veikt og hvorki heyrist hósti né stuna í húsinu og hafa öll verið í notkun, humm.....Það er bara óskandi að þetta sé réttur grunur og þau séu að sleppa svona létt í gegnum þetta. 

Eldra efni

Flettingar í dag: 9521
Gestir í dag: 26
Flettingar í gær: 905
Gestir í gær: 23
Samtals flettingar: 1755623
Samtals gestir: 102650
Tölur uppfærðar: 16.1.2025 12:38:06

ÁLFHÓLAR | SARA ÁSTÞÓRSDÓTTIR | 861 HVOLSVÖLLUR - ÍSLAND | Tel: (+354) 898 8048 | [email protected]