27.11.2009 10:22

Mynd sem segir söguÉg var að flétta í gegnum myndir sem Birgit frá Þýskalandi tók í sumar og rak þá augun í þessa sem ég hafði ekki veitt neina athygli áður.  Bara ósköp venjuleg mynd af hrossum í rekstri, eða allavega er það sem flestir sjá.

Þessi mynd segir mér hins vegar söguna af forystusauðnum Dívu sem leiðir hópinn, yfirklappstýrunni Móey sem ég get alltaf notað sem mið í haganum þegar ég er að tékka hvort Díva sé ekki örugglega á sínum stað.   Díva er svona sparibaukur sem ég passa sérlega mikið uppá og hafði hana yfirleitt úti eina.  Fann svo út að það væri ein hryssa í húsinu sem myndi aldrei sparka frá sér og það var hún Móey litla og því óhætt að hafa þær saman.  Ef að allir í heiminum væru eins og Móey þá væru öll stríð úr sögunni.  Það gat verið skondið að fylgjast með því í svona túrum, ef það var einhver slagur í uppsiglingu, þá hljóp sú vindótta á bak við Dívu eða Gjósku, þá móálóttskjóttu og faldi sig svo hún yrði örugglega ekki fyrir höggi.  Náttúrulega mjög hentugt þegar hross eru svona þenkjandi því þá er maður ekki hræddur um að þau slasi sig í slagsmálum.

Sú gráa, Frostrós og Heiðrún sú jarpa tóku uppá því í sumar að vilja vera alltaf saman og heimtuðu að fá að vera í sömu stíu á daginn, ekki gerði ég neitt til þess að gera þær að vinkonum en það eru ein 4 ár á milli þeirra í aldri.

Svo að lokum er það Gjóska, alltaf jafn sátt í eigin skinni og lætur sé fátt um finnast þó að reksturinn fjarlægist óðfluga. Það er oft eins og hún þurfi ekkert sérstaklega á vinum að halda og passar uppá sinn persónulega radíus.  Ef hægt er að tala um að hross séu mismundandi greind, þá held ég að þessi skjótta greinist í efri mörkunum.Fjölskyldubönd eru gífurlega sterk í hrossahópnum og systkyni halda oft saman langt fram eftir aldri fái þau tækifæri á því.  1stu verðlauna hryssan Skessa frá Kanastöðum passar hér uppá yngri systur sína í áningu í sama rekstri.

Já, tengslin í hrossahópnum eru margbreytilegri heldur en margur gerir sér grein fyrir.

Flettingar í dag: 1523
Gestir í dag: 353
Flettingar í gær: 381
Gestir í gær: 194
Samtals flettingar: 769325
Samtals gestir: 44199
Tölur uppfærðar: 24.9.2023 22:43:33

ÁLFHÓLAR | SARA ÁSTÞÓRSDÓTTIR | 861 HVOLSVÖLLUR - ÍSLAND | Tel: (+354) 898 8048 | [email protected]