07.06.2009 20:08

Kynbóta "rúllettan"

Fyrri viku kynbótasýningu á Hellu lauk með yfirliti á föstudag.  Ég sýndi 3 hryssur, Dívu og Herská og Gullveig frá Lóni renndi ég aftur í gegn.



Díva stóð sig vel og fékk fjórar níur, fyrir tölt, stökk, vilja og fegurð í reið, 8,15 fyrir hæfileika og 8.02 í byggingu, 8.10 út.  Ég var bara nokkuð sátt við útkomuna, allavega þar til einhverjir brekkudómarar fóru að ýta því að mér að hún hefði alveg mátt fá 9,5 fyrir tölt í forsýningunni, ég ætla svo sem ekkert að leggja mat á það, fannst ég bara ætti að örugglega að fá 9 og var ekkert farin að hugsa neitt lengra en það :)

Ég vildi ekki vera að ergja lesendur með enn einni myndinni af Dívu svo ég setti bara mynd af næstu vonarstjörnu undan Dimmu í staðinn, henni Dimmuorg Bragadóttur sem er nú á öðrum vetri.  Dimma hefur nú skilað 4 afkvæmum af fimm sýndum í fyrstu verðlaun, öll 5 eru með 8,5 eða 9 fyrir tölt og fegurð í reið eftirsóknaverðustu eiginleikana í ræktun að mínu mati fyrir utan vilja og geðslag sem þau eru líka öll með 8,5 og 9 fyrir, nema ein.  Ekki svo slæmt hjá henni Dimmu minni.

Gullveig frá Lóni skreið yfir áttuna og Norðmaðurinn síkáti tók gleði sína á ný.  En Gullveig er á förum til frændríkisins eftir stefnumót við Álf frá Selfossi ef að líkum lætur. Ég á reyndar eftir að upplýsa hann um litamöguleikana sem geta komið fram eftir slíkan hitting, hvort hann er tilbúinn til að fá eitthvað hvítt með rauð eyru eins og getur komið þegar verið er að mixa saman tveim slettuskjóttum genum.  Gulla er nefnilega með örlítið hvítt í auga sem gefur til kynna að hún getur verið örlát á slettuskjótt líkt og Glampi faðir hennar.

Já og þriðja hrossið sem fór í braut, ekki orð um það meir, nýtekin af botnunum og eitthvað extra afundinn þann daginn. Það má eiginlega segja að við höfum toppað okkur neðan frá humm :/   Reyndar vissi ég alveg áður en ég reið í braut að þetta ætti ekki eftir að ganga, eins og að spila rússneska rúllettu með skot í öllum hylkjum nema einu og vona það besta, kallast þetta ekki bara spilafíkn, svona heimska? ;)

En spilafíknin heldur áfram og það er stefnt með eitthvað fleira í braut í næstu viku og spennandi að sjá hvaða tölur verða dregnar uppúr hattinum þá. 

Eldra efni

Flettingar í dag: 319
Gestir í dag: 24
Flettingar í gær: 15534
Gestir í gær: 437
Samtals flettingar: 1351016
Samtals gestir: 89339
Tölur uppfærðar: 11.9.2024 04:54:06

ÁLFHÓLAR | SARA ÁSTÞÓRSDÓTTIR | 861 HVOLSVÖLLUR - ÍSLAND | Tel: (+354) 898 8048 | [email protected]