28.07.2008 13:03

Mánasteinn

Það sem gefur hestamennskunni gildi að mínu mati er ræktunin og að fylgjast með ungviðinu í uppvexti, spennan og eftirvæntingin hvort þar fari gæðingur sem sker sig úr að einhverju leyti eða eitthvað sem fellur bara inní fjöldann.

Mánasteinn er tvævetlingur undan Móeiði og Tígur gamla og líklega hef ég heldur verið fljót á mér að gefa Dimmi nafnbótina "Síðasti hornfirðingurinn í dalnum" ´þvi þessi hefur enn sterkari skyldleika að rekja til Hornafjarðar, þó ekki sé hann beint ímynd þess hornfirska gæðings.  Liturinn á honum verður seint sagður eins "upplitaður mykjuhaugur" eins og sagt var um forfaðirinn Skugga frá Bjarnanesi.  Þeir sem hafa gaman af ættfræði geta skoðað  ættartré Mónu og séð hvað hún er skemmitlega samtvinnuð frá mögum hornfirskum hestum en fyrir þá sem ekki vita er Móeiður undan henni og Kjark frá Egilstaðabæ sem kemur einnig sterkur inn úr Hornafirði með Skó frá Flatey sem afa og Ófeig frá Hvanneyri sem langafa. 
Nánar svo um uppruna vindótta litarins  í Álfhólum hér 

Hvort Mánasteinn eigi eftir að skera sig úr fjöldanum, veit ég ekkert um, hinsvegar bar hann af tvævetlingunum mínum og fékk að fara í hryssur þó ég sé að mestu hætt að nota ósýnda titti í miklum mæli.

Ég hef stundum sagt að þegar ég er að járna hross þá geti ég sagt um hvort þau séu eða verði hágeng, finn alltaf hvort þau eru liðug í bógunum eða ekki. 

Á þessari mynd fær hugtakið hökuhágengur nýja merkingu og ef hann heldur áfram að vera svona liðugur í bógum, þá örvænti ég ekki!  Þarna heilsar Mánasteinn hálfsystur Ágústínusar með virktum, bjó til smá dramatíkska stuttmynd af fyrstu kynnum þeirra sem sjá má hér og sýnir glöggt að stóðhestalíf getur verðið stórhættulegt líf ef maður kann ekki að passa sig.



Íslandsmót er nýafstaðið, en þar sem ég er róleg í keppninni þessa dagana þá leyfi ég öðrum að spreyta sig  Hrefna María stóð sig vel og var í fjórða sæti í slaktaumatölti á Rauðskegg sínum.  Svo renndi hún Diljá, Ísoldar og Reginsdóttur í gegnum fimmgang og gekk býsna vel, 14 sæti af 50 keppendum í sinni fyrstu keppni á hringvelli.  Hrefna á sennilega eftir að hugsa mér þegjandi þörfina því ég rak hana undir hest með merina, en Ómur frá Kvistum varð fyrir valinu.  Ég veit nefnilega fyrst hún byrjar svona vel  í keppni þá vill hún örugglega meira og gera betur með hana!  Mér finnst þetta aftur á móti svo góð meri að mér finnst glæpur að halda henni geldri eitt árið enn, svona hugsum við ólíkt frænkurnar
Flettingar í dag: 349
Gestir í dag: 64
Flettingar í gær: 3161
Gestir í gær: 63
Samtals flettingar: 879254
Samtals gestir: 55654
Tölur uppfærðar: 30.11.2023 14:48:42

ÁLFHÓLAR | SARA ÁSTÞÓRSDÓTTIR | 861 HVOLSVÖLLUR - ÍSLAND | Tel: (+354) 898 8048 | [email protected]