12.07.2008 20:16

Dimmir og Díva í myndatöku og sitthvað fleira

Fékk Elku Guðmundsdóttur í heimsókn í gær og tók hún m.a myndir af Dimmi áður en hann fór að sinna skyldustörfum og Dívu systur hans. Á hún hinar bestu þakkir skildar fyrir fínar myndir. 
Ein í lokin af skeiðspretti á landsmóti, enginn fjórtaktur þar á ferð! 
Vil minna á að fáein pláss eru enn laus undir hann og hægt að setja inn til hans fram eftir sumri.

Díva er í léttu trimmi, jafnvel með það í huga að sýna aftur á síðsumarssýningu.  Fleiri myndi má finna af þeim systkinum  hér

Þau eru skemmtileg systkinin undir hnakk, en það er ekki þar með sagt að það sé engu öðru sinnt.  Mikið að gera á tamningastöðinni, bæði fyrir og eftir landsmót. 
Ég taldi uppundir 50 hross í hesthúsinu í dag, já það er gott að eiga stórt hús og getað staflað inn í það með góðu móti! 
Tvær duglegar stelpur eru í vinnu hjá mér, Sara Rut og Maja frá Danmörku. Þarna er Maja að undirbúa 4v hálfsystur Diljá undan Ísold og Flugari frá Barkastöðum.

Alltaf er eitthvað til sölu og alltaf er eitthvað að seljast annars nennti maður nú ekki að standa í þessum bissness!  
Vil minna fólk bara á að hafa samband ef það er að leita að hesti, það er aldrei að vita nema að draumahesturinn sé ekki langt undan. 

M.a er nýkominn á söluskrá þessi myndarlegi 7v Pegasussonur sem við köllum Örninn, stór og traustlega byggður klárhestur sem fer vel með og fallega undir, hentar meðalvönum reiðmönnum. Video af honum væntanlegt fljótlega.

Fáfnir frá Baldurshaga er litfallegur og góður fjölskylduhestur sem er búinn að vera í þjálfun hjá mér í rúman mánuð.  Stóð úti sl vetur.  Góður hestur á sanngjörnu verði. Fáfnir er hálfbróðir 1st verðlauna stóðhestsins Sörla frá Búlandi, eiga sömu móður.

Já það er gott að fá rigningardag til þess að geta sest við tölvuna og látið vita að hér sé líf og fjör.  Var búin að plana rekstur um helgina en sú áætlun fauk út í veður og vind í orðsins fyllstu merkingu.  Manni er farið að langa í skemmtilegan túr, enginn var hann farinn í fyrra vegna yfirvofandi hesthúsframkvæmda sem tóku frá manni alla orku en núna.... ja það er ekkert sérstakt sem liggur fyrir nema að koma tryppunum í betra form.
Hver fær ekki fiðring í magann?? Mynd tekin í Rangárbotnum fyrir tveim árum.
Mozart, Artemis og Silfurfaxa í Fljótshlíðinni.
Og alltaf má finna sér aðstöðu til tamninga, en þarna er verið að undirbúa Rebba Pegasusson fyrir sinn fyrsta reiðtúr í Áfangagili.  Daníel Smárason ofurtamningamaður leggur á og Sara Rut er búin að koma sér vel fyrir í áhorfandastúkunni.  Ég á spottanum eins og venjulega.  
 
Fyrst ég minnist á Daníel, þá er ég ansi stolt af stráknum.  Hann kemur úr 101 RVK, kom til mín 2004 sem grænmetisæta og tölvunörd en það breyttist nú fljótlega og eftir að tryppahark hjá mér í fjögur sumur, fékk hann sér vinnu hjá Sigga Matt sl vetur og er núna kominn inn á Hóla.  Danni hefur alltaf verið mikill áhugamaður um skeið og gert góða hluti á hesti sem aldrei var talinn mikið vakur og keppti m.a á Landsmóti í 100m skeiði.

Segi það alltaf um krakkana sem koma ekki úr hestafjölskyldum en eru samt dugleg þrjóskast við og brasa í þessu að þau eiga framtíðina fyrir sér í hestabransanum og hafa greinilega einlægan áhuga.  Þannig er það með Söru líka, hún kemur ekki úr neinni hestafjölskyldu heldur þó að foreldrar hennar viti hvað snýr fram og aftur á hesti.

Síðustu 3 myndirnar fékk ég lánaðar hjá Lenu norsku sem var að þjálfa hjá mér fyrir tveim árum.

Flettingar í dag: 321
Gestir í dag: 67
Flettingar í gær: 282
Gestir í gær: 73
Samtals flettingar: 4983882
Samtals gestir: 790512
Tölur uppfærðar: 5.7.2020 19:16:15

ÁLFHÓLAR | SARA ÁSTÞÓRSDÓTTIR | 861 HVOLSVÖLLUR - ÍSLAND | Tel: (+354) 898 8048 | ALFHOLAR@ALFHOLAR.IS