06.07.2008 22:24

Landsmótsfréttir

Það hafa skipst á skin og skúrir á þessu landsmóti og blásið hressilega um mótsgesti á milli þess sem sólin gægist og vermir um hjartarætur líkt og margur glæstur gæðingurinn í brautinni.  Helgarveðrið var alveg frábært og væsti ekki um fólkið í brekkunni.  Því miður fylgdist ég ekki eins vel með og ég vildi en þó rekið augun í eitt og annað spennandi, t.d er vert að minnast á Auð frá Lundum sem er glæsihestur,  þó töluvert betri í fordómi, Möller frá Blesastöðum sem kom á óvart í fordómi. Hóf frá Varmalæk er ég líka að sjá í fyrsta skipti hann hefur mikið lúkk og er flottur á sinni ferð.  Ómur frá Kvistum er með flottari alhliða hestum sem maður sér, Álfur á sinn stall, Fróði frá Staðartungu áferðafallegur og rúmur, Kraflar frá Ketilsstöðum hefur töff lúkk og svifmiklar hreyfingar.  Dugur frá Þúfu er myndarhestur og ekki dónalegt að eiga von á tveim folöldum undan honum!  Ofl,ofl, það var ógrynni af flottum hestum þarna sérstaklega var 5v flokkurinn í heild sýna fyrnasterkur. Missti alltaf af fjöggura vetra hestunum og þ.al af Kappa frá Kommu.  Set spurningamerki um hvernig hægt er að hækka hest úr 7,5 í fordómi í 8,5 fyrir vilja á yfirliti eins og var gert með hann. 

Hryssa sem Mette sýndi og heitir Fantasía frá Breiðstöðum er samt eitt af þeim hrossum sem ég var mest hrifin af í forsýningu , loftaði vel undir hana og segir mér það að ég er að gera rétt með því að halda hornfirska blóðinu til haga en móðirin er Mergsdóttir frá Skörðugili og úr hornfirska ættleggnum þar, eftir því sem ég kemst næst.  Ekki var hún nú faxmikil blessunin, með pönkaralúkkið góða en það breytti engu um fasið hjá henni, menn mega nefnilega ekki rugla saman faxi og fasi!! Ég og einn viðmælandi minn vorum sammála um að hún hefði alveg mátt fá 9,5 fyrir fegurð í reið.   Hún var hins vegar ekki að sýna sitt besta í afkvæmahópnum hans Hróðurs, fór um á hoppi og skoppi mest, allan tíman frekar stjórnlaus, en slíkt getur gerst í hita leiksins.

Töltúrslitin á laugardeginum voru spennandi og ófyrirséð.  Losti frá Strandahjáleigu var hæstur á hæga töltinu, Tumi fyrir hraðabreytingarnar og Rökkvi fyrir yfirferð.  Eftir yfirferðina hafði brekkan snúist á sveif með Rökkva sem gjörsamlega týndi hestana upp hvern á fætur öðrum án þess að fipast en þrjár 10 fyrir yfirferð dugðu ekki í fyrsta sætið. Spurning hvað var hægt að gera betur fyrir þá sem gáfu 9,5 urnar?  Losti sprakk á yfirferðinni en fyrir það var ég komin í fylglislið hans, svakalega flottur hestur sem getur gengið í miklum burði, ég hefði alveg unnt honum að sigra ef hann hefði haldið út.
 
Úrslitin á sunnudaginn voru veisla, þvílíkir yfirferðagammar í B-flokknum og enginn að taka framúr neinum.  Brokkið hefði mátt takast betur hjá flestum en margir lentu í ógöngum um tíma.  Ísleifur og Röðull vel að sínum sigri komnir.

A-flokkurinn var dramatískur, Kolskeggur sem flestir höfðu spáð sigri, reif undan sér, líklega á brokkinu.  Var samt hæðstur fyrir skeiðið en skeifulaus skeiðaði hann ekki og var þvi úr leik.  Aris vann verðskuldað, flottur hestur og mér fannst hann ekki síðri á tölti og brokki en Kolskeggur þrátt fyrir að einkunnir segðu annað.  Feykna góðir skeiðsprettir hjá Illingi  frá Tóftum og Þyt frá Kálfhóli.


Sara Rut og Mósart stóðu sig vel, komust í milliriðla með góðri sýningu í forkeppni,  flott hægt tölt hjá þeim og glæsibrokk.  En í  milliriðlunum gekk ekki allt upp og Mozart tók ekki brokkið strax, sína bestu gangtegund og náðu þau þ.a.l ekki úrslitasæti, sem var jafnvel í augnsýn ef þau hefðu verið í sínu besta formi.  En svona er keppnin, heppni og útsjónasemi í bland við góða þjálfun á góðum hesti.

Dimmir var töluvert frá því besta, svona eins og ég þekki hann núorðið, en hann hélt öllu sínu gangtegundalega séð en lækkaði fyrir vilja niður í 8,5.  Það var ekki hægt annað því sýningin gekk ekki snuðrulaust fyrir sig.  Hann ætlaði að sigla í þennan rosa skeiðsprett en...**pang** vinnuslys á miðri leið með tilheyrandi leiðindum en náðum að klóra yfir með því að taka þokkalegan sprett uppá 8 strax til baka. 
Fyrir yfirlitið hafði ég knapaskipti og Leó tók við taumunum, markmiðið var að hann myndi hækka skeiðið fyrir mig, enda hef ég kannski sagt áður að mér fari best að ríða tölt og brokk.  Hvort það var skynsamleg ákvörðun veit ég ekki, allavega var hann ekki að fá neitt fram sem ég er búin að sjá til þeirra áður og var því ekki ástæða til neinnar hækkunar.   En nú fer kallinn bara í hryssur og gerir betur að ári.

Að lokum vil ég þakka öllum vinunum fyrir skemmtilegar samverustundir í brekkunni meðan á öllu þessu stóð, ekki er mannlifið síður skemmtilegt en hestalífið

Flettingar í dag: 368
Gestir í dag: 68
Flettingar í gær: 282
Gestir í gær: 73
Samtals flettingar: 4983929
Samtals gestir: 790513
Tölur uppfærðar: 5.7.2020 19:54:53

ÁLFHÓLAR | SARA ÁSTÞÓRSDÓTTIR | 861 HVOLSVÖLLUR - ÍSLAND | Tel: (+354) 898 8048 | ALFHOLAR@ALFHOLAR.IS