22.09.2007 22:02

Smá hugleiðing

Um þessar mundir eru allir hestavefmiðlar logandi af umfjöllun um ófarir Blæs frá Torfunesi.  Hesturinn er í slæmu ástandi,, um það ætla ég ekki að fjölyrða, hins vegar er þetta ábyggilega ekkert eindæmi að stóðhestur sem er í stífri þjálfun allann veturinn og langt fram á sumar,  fari illa í þeirri ótíð sem verið hefur síðustu 3-4 vikurnar eða svo.  Ég er með nokkra stóðhesta á fínu grasi hérna fyrir neðan hjá mér, gamall hestur sem búinn að ganga úti síðustu 10 árin eða svo,  vosbúðin bítur ekkert á hann, feitur og fínn þrátt fyrir að vera kominn á þrítugsaldurinn.  Annar á sama stað, búinn að vera í keppni fram á sumar, lítur mjög vel út í fjarska en þegar að er gáð hefur hann hríðlagt af eftir hann kom í girðingunna fyrir u.þ.b 3 vikum, þrátt fyrir nægan aðgang að heyi og vatni.  Það kostar töluverða vinnu að halda holdum á stóðhestum sem búnir eru að vera inni allann veturinn og í mikilli brúkun. Grasið eitt virðist bara stundum ekki duga þeim þegar þessi tími er kominn og maður spyr sig líka hvort þeir hafi eitthvað í hryssum að gera eftir 1 september?

En Blæsmálið hefur aldeilis verið vatn á myllu þeirra sem hafa horn í síðu Óðins, því hann þykir af sumum nokkuð umdeildur og hann hefur  verið opinberlega tekinn af lífi á netinu, búið að fara fram á gæsluvarðhaldsúrskurð og ég veit ekki hvað og hvað og gott ef ekki, búið að kæra hann fyrir "dýraverndunarfabrikkunni".  Það sem "rétttrúnaðarslúðurverjar" átta sig ekki á, er að það er ekki svo erfitt að koma hesti í hold aftur, á ekki svo löngum tíma ef rétt er á málum haldið og hesturinn er heilbrigður.  Það var nú ekki lítið agnúast út í nágranna mína og þar átti að slátra hóp af fylfullum merum af því að þær þóttu ekki "sumar á setjandi".  Ég hef barið þessar hryssur augum og afkvæmin þeirra sem hlaupa hamingjusöm og hraustleg um, algerlega grunlaus um hversu tæpt stóð hjá þeim.

Æi, þetta er orðin hálfgerð langloka hjá mér, en inngangspunkturinn átti að vera hræsnin í okkur. Dýravernd er eitthvað sem á við í sumum tilvikum en er annars stungið ofan í skúffu. Hvað segja dýraverndunarsamtökin t.d yfir þeim þúsundum gæsa sem skotglaðir veiðimenn nenna ekki að elta uppi(af því að það má ekki missa af næsta hóp), og flögra um hálfskotnar vikum og mánuðum saman þangað til þrekið fer þverrandi og þær eru étnar lifandi af vargfugli.  Ég bý á einu mesta skotveiðisvæði landsins og mig flökrar við meðferðinni á þessum dýrum.  Ég fer ekki ríðandi um landareignina öðruvísi en að finna nokkrar í þessu ásigkomulagi, þegar þessi tími er kominn.  Hvar eru þessir svokölluðu dýraverndunarsinnar þá? Ég man ekki eftir að hafa lesið margar greinar um mikilvægi þess að elta uppi særðan fugl og klára skítverkin sín.  Blær og önnur "horfóðruð" hross ná sér en gæsin sem flögrar um með höglin bíður ekkert annað en dauðastríð!
Flettingar í dag: 73
Gestir í dag: 32
Flettingar í gær: 455
Gestir í gær: 88
Samtals flettingar: 4737345
Samtals gestir: 768419
Tölur uppfærðar: 20.8.2019 03:36:47

ÁLFHÓLAR | SARA ÁSTÞÓRSDÓTTIR | 861 HVOLSVÖLLUR - ÍSLAND | Tel: (+354) 898 8048 | ALFHOLAR@ALFHOLAR.IS